Í ágúst 2010 flutti leikskólinn frá Álfaskeiði 16 í nýtt húsnæði sem einnig er í Víðistaðaskóli í Engidal að Breiðvangi 42. Fyrsta mánuðinn vorum við í bráðabirgðarstofum á neðri hæð grunnskólans en 22. september var flutt í núverandi húsnæði og tvær deildir voru opnaðar, Baggalá og Keilir. Hefð hafði verið fyrir því í grunnskólanum að skíra skólastofurnar eftir kennileitum úr Hafnarfirði og nágrenni. Ákváðum við að halda þeirri hefð á deildunum okkar.
Áður en við fluttum höfðum við sérhæft okkur í starfi með 5 ára börnum og var leikskólinn eingöngu opinn þeim aldri. Eftir að leikskólanum á Álfaskeiði var lokað fórum við að taka á móti börnum frá 18 mánaða til 5 ára. Margt af því góða starfi sem unnið hafði verið á gamla staðnum tókum við með okkur og munum halda áfram að þróa það á nýjum stað. Í huga starfsmanna var leikskólanum Álfabergi fyrir 5 ára börn lokað og nýr leikskóli tók til starfa í Norðurbænum undir sama heiti, þ.e. Álfaberg. Við lítum því svo á að afmælisdagur leikskólans sé 22. september því þá tók hann til starfa með tilkomu opnun nýju deildanna.
Haustið 2012 opnaði þriðja deild leikskólans og fékk hún nafnið Helgafell. Í ársbyrjun 2013 opnuðu síðan síðustu deildarnar okkar tvær og heita þær Búrfell og Esja. Í þeim áfanga varð starfsmannaaðstaða tilbúin og skrifstofa sérkennslustjóra leit dagsins ljós. Sumarið 2013 var síðan útisvæði fyrir yngri börn leikskólans tekið í notkun. Það var ótrúlegur tíminn sem við áttum hér frá því að við fluttum inn og þar til allar deildarnar voru tilbúnar, mikið rót í umhverfi okkar og margir iðnaðarmenn að störfum. Starfsmannahópurinn, foreldrar og börn voru þó þolinmóð og jákvæð og eigum við mörgum margt að þakka.
Það fer vel um okkur í leikskólanum og deildarnar eru ágætlega rúmgóðar. Eldri börn leikskólans eru á Baggalá og Helgafelli og yngri börnin á Keili, Búrfelli og Esju. Á neðri hæð skólans er íþróttasalur sem við samnýtum með grunnskólanum. Þegar grunnskóladeginum er lokið höfum við marga staði til að leika okkur á í skólanum og erum við dugleg að nýta okkur hin ýsmu svæði sem við höfum aðgang að. Til að mynda er mjög notalegt að ljúka deginum á bókasafni skólans og lesa góða bók saman. Við erum dugleg að fara út á daginn og í næsta nágrenni okkar er yndislegt útsvæði þar sem við getum leikið okkur, týnt ber og gleymt okkur í óspilltri náttúrunni. Einnig höfum við aðgang að heimilisfræðistofu skólans sem og tölvustofu.