Í leikskólanum starfa leikskólakennarar, grunnskólakennarar, þroskaþjálfi og leiðbeinendur með margvíslega menntun og reynslu að baki.

Áhersla er á leik í gegnum áhuga og styrk barnsins og efla með því trú þess á sjálft sig og hámarka um leið getu þess. Hugmyndafræði Howards Gardners er leiðarljós okkar á þeirri leið og að vera meðvituð um að allir séu góðir í einhverju en enginn í öllu. Snillistundir (hópastarf) með börnum eru á hverjum degi, stundum tvisvar á dag þar sem unnið er samkvæmt hugmyndafræðinni. Þrír megin áhersluþættir leikskólans eru lífsleikni, íslenska og stærðfræði. Við leggjum áherslu á snemmtæka íhlutun og fylgjumst vel með þroska hvers barns. Val verkefna hverju sinni fer eftir aldri barnanna og eftir því sem þau eldast fara þau að hafa meiri áhrif. Leikurinn er í fyrrirúmi og að börnin uppgötvi og rannsaki. Einnig er lögð áhersla á skapandi starf og vettvangsferðir. Þessir þættir fléttast saman í gegnum allt leikskólastarfið ásamt því að tengjast vinnu í Snillistundum.

Síðast en ekki síst er lögð áhersla á að mynda jákvætt andrúmsloft, skapandi og lærdómsríkt umhverfi fyrir börn og fullorðna. Börnum og starfsfólki á að líða vel. Við berum virðingu fyrir líðan og tilfinningum barnanna, veitum þeim umhyggju og leiðsögn. Það er hlutverk kennara að lesa í við brögð þeirra og mæta þörfum þeirra. Rödd barnsins er okkar leiðarljós og á hana eigum við hlusta, fylgjast með og bregðast rétt við. Gott foreldrasamstarf skiptir gríðarlega miklu máli. Þið eruð augu okkar og eyru. Við viljum heyra ykkar raddir og fá að heyra frá ykkur um það sem þið teljið að betur megi fara og þegar við gerum vel. Þið eruð ávallt velkomin í foreldraviðtöl ef þið teljið ástæðu til eða í létt spjall til okkar þegar þið komið með börnin í leikskólann eða sækið, einnig ávallt hægt að hringja í okkur. Hefðbundin foreldraviðtöl eru einu sinni á ári í kringum afmælisdag barnsins eða oftar ef þörf er á.

Markmið starfsmannahópsins er að mynda samheldni í að sameinast um hugmyndir, miðla þekkingu sinni á milli og læra hvert af öðru. Áhugasvið starfsmanna á líka að fá að njóta sín í starfi með börnunum. Það er helsta verkefni hvers og eins starfsmanns að verða skapandi, öruggur og lausnamiðaður í starfi sínu.

Skólaárið 2014 - 2015 var unnið að þróunarverkefni um snemmtæka íhlutun og læsi og verður haldið áfram að þróa það starf. Rafbók um verkefnið var búin til þar sem glögglega má sjá hvernig unnið er með læsi í leikskólanum (Rafbók leikskólans um snemmtæka íhlutun og læsi.). Við stefnum á að gera slíka rafbók einnig fyrir stærðfræði.

Í leikskólanum er unnið samkvæmt SMT skólafærni en nánar má lesa um það undir flipanum SMT-skólafærni.