Samkvæmt lögum skal vera starfrækt foreldraráð við hvern leikskóla og er hlutverk foreldraráðsins að gefa umsagnir til leikskóla og nefndar, sbr. 2. mgr. 4. gr., um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða starfsemi leikskólans. Þá skal ráðið fylgjast með framkvæmd skólanámskrár og annarra áætlana innan leikskólans og kynningu þeirra fyrir foreldrum. Foreldraráð hefur umsagnarrétt um allar meiri háttar breytingar á leikskólastarfi.

Samkvæmt reglum um foreldraráð skal kjósa í ráðið við leikskóla og skal leikskólastjóri hafa frumkvæði að kosningu í ráðið. Í foreldraráði sitja að lágmarki þrír foreldrar. Skal kosning til foreldraráðs fara fram í september á ári hverju og skal kosið til eins árs í senn. Foreldraráð setur sér starfsreglur. Leikskólastjóra ber að starfa með foreldraráði.

Foreldrar leikskólabarna skulu gæta hagsmuna barna sinna. Þeir skulu hafa náið samráð við starfsfólk leikskóla og fylgjast með skólagöngu barna sinna og veita þær upplýsingar sem kunna að skipta máli fyrir skólastarfið og velferð barna. Foreldrar skulu jafnframt eiga rétt á upplýsingum um skólastarfið og stöðu barna sinna.
Eigi í hlut foreldrar sem tala ekki íslensku eða nota táknmál skal skóli leitast við að tryggja þeim túlkun á upplýsingum sem nauðsynlegar eru vegna samskipta foreldra og skóla samkvæmt þessari grein.

Starfsreglur foreldraráðs leikskólans Álfabergs.

1. gr. Hlutverk.

Foreldraráð starfar með hagsmuni barnanna og foreldra þeirra að leiðarljósi og fylgist með því að hlúð sé að velferð og réttindum barnanna í leikskólastarfinu. Ráðið fjallar um og veitir umsögn til leikskólans og leikskólanefndar Hafnarfjarðar um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða starfsemi leikskólans. Það fylgist enn fremur með því að skólanámskrá og aðrar áætlanir séu kynntar fyrir foreldrum og hvernig þær eru framkvæmdar. Bera skal allar meiri háttar ákvarðanir um skólastarfið undir foreldraráð sem veitir umsögn um þær

Foreldraráðið fjallar um ábendingar frá foreldrum og öðrum forsjáraðilum um starfsemi leikskólans og aðbúnað barnanna og getur komið þeim á framfæri við leikskólastjóra eða bæjaryfirvöld.

2. gr. Starfstímabil og kosning.

Starfstímabil foreldraráðs er eitt ár og fer kosning í það fram síðari hluta septembermánaðar á hverju ári. Þrír fulltrúar eru kosnir í ráðið og skal stefnt að því að þeir komi af báðum deildum leikskólans. Leitast skal við að einn fulltrúi, sem setið hafa í foreldraráði, bjóði sig fram að nýju.

Kosning í ráðið fer fram á fundi sem sitjandi foreldraráð boðar til a.m.k. einni viku áður en kjörtímabilið rennur út. Heimilt er að láta kosninguna fara fram á aðalfundi foreldrafélagsins. Hafi ekki verið boðað til fundar til að kjósa nýtt foreldraráð í septemberlok getur leikskólastjóri boðað til almenns foreldrafundar þar sem kosning í ráðið fer fram.

Óskað er eftir framboðum á fundinum og á hver forsjáraðili atkvæðisrétt ef til atkvæðagreiðslu kemur.

3. gr. Starfshættir foreldraráðs.

Á fyrsta fundi foreldraráðs velja fulltrúarnir sér formann og skipta að öðru leyti með sér verkum. Formaður boðar til funda í foreldraráðinu. Þeir skulu að jafnaði haldnir eini sinni í mánuði yfir vetrarmánuðina og oftar ef þurfa þykir.

Halda skal fundargerðir um það sem fram fer á fundum foreldraráðsins. Fundargerðirnar eru birtar á vef leikskólans ásamt umsögnum og ályktunum ráðsins.

Foreldraráð getur staðið fyrir almennum fundum meðal foreldra barnanna og annarra forsjáraðila um málefni sem varða starfið á leikskólanum. Foreldraráðið starfar í náinni samvinnu við leikskólastjóra og foreldrafélag skólans. Fulltrúi ráðsins tekur þátt í samstarfi foreldrafélaga meðal annars á vettvangi samtakanna Heimili og skóli.

Fulltrúar í foreldraráði skulu gæta þagmælsku um atriði sem þeim er trúað fyrir út af setu þeirra í foreldraráði og varða fjölskylduaðstæður einstakra barna, hegðun þeirra og heilsufar eða önnur viðkvæm atriði sem eðlilegt er að fari leynt.

Á fundi foreldraráðs við lok starfstímabilsins gerir formaður þess grein fyrir starfi ráðsins áður en nýtt foreldraráð er kjörið.

4. gr. Birting starfsreglna og breytingar á þeim.

Foreldraráðið lætur birta starfsreglurnar á heimasíðu leikskólans.

Að lokinni kosningu nýs foreldraráðs í september ár hvert skal taka afstöðu til þess hvort endurskoða þurfi starfsreglurnar.